Eldbergs
Theodór hefur starfað sem björgunarsveitarmaður á útkallslista í rúm 15 ár. Fyrir 12 árum byrjaði hann að þjálfa Huga með Leitarhundum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, síðan Tind og núna Ghazi. Við fengum nokkrar myndir sendar af Ghazi sem teknar voru á æfinga- og úttektarhelgi Leitarhunda. Ghazi æfði bæði laugardag og sunnudag og tók leitir í víðavangsleit (vindlykt) ásamt sporaleit. Það virðist engu máli skipta hvaða verkefni þessi hundur fær, hann rúllar öllu upp enda gríðarlega vinnusamur. Þrátt fyrir að vera með bæði bitvinnupróf og erlent sporapróf þá er lítið mál að þjálfa hann að auki í víðavangsleit og sporaleit í íslenskri náttúru.
Það er gaman að fá fyrirspurnir frá þeim sem eru að fylgjast með okkur og höfum við fengið spurningar og athugasemdir varðandi það að ala upp þessa tegund með börnum. Á okkar heimili eru börnin alin upp við að eiga schafer, þau þekkja ekki annað og eru öll miklir dýravinir. Hundarnir eru yfirleitt það síðasta sem þau kveðja á kvöldin og það fyrsta sem þau heilsa á morgnana. Stundum æfa þau sig að lesa heimalesturinn fyrir hundana. Hundarnir fylgja okkur allt, í ferðalög innanlands, ganga stundum með krökkunum í og úr skóla og leikskóla, eru með í leikjum úti í garði og fara alltaf með þegar farið er á rólóvöll. Börnin koma með í lausagöngur með hundana og taka þátt í að sinna þeim heimavið. Börnin eru þrjú og eru 9, 6 og 2 ára og hundarnir á heimilinu eru þrír; 12, 4 og 3 ára. Það er vart hægt að sjá hvort samveran gefi börnunum eða hundunum meira. Við getum svo sannarlega mælt með þessari tegund fyrir fjölskyldufólk.
|
EldbergsSchäfer ræktun Fréttir
December 2023
Flokkar |