Eldbergs
Það gekk vel hjá okkur á hundasýningunni sem haldin var síðustu helgi. Við mættum með sex hunda á laugardaginn: þrjá hvolpa sem voru að koma á sína fyrstu sýningu, eina síðhærða ungliðatík, eina fullorðna tík og einn rakka. Það sem stóð hvað helst upp úr var árangur Ghazi á sýningunni en hann sigraði tegundina og fór í úrslit í stóra hringnum þar sem hann keppti við sigurvegara úr öðrum fjárhundategundum. Hann sigraði þar og var valinn Besti hundur í tegundahópi 1. Hann mætti því aftur á sunnudeginum til þess að keppa um titilinn Besta hund sýningar, topp 9 hundar yfir allar tegundir. Ghazi lenti þar í þriðja sæti og var því þriðji besti hundur sýningar af 1150 hundum en þetta var langstærsta sýning félagsins til þessa. Stórglæsilegur árangur og gætum við ekki verið stoltari. Annar hundur frá okkur keppti einnig í úrslitum en það var hin 6 mánaða gamla Eldbergs Birta sem sigraði hvolpaflokkinn og var valin Besti hvolpur tegundar 6-9 mánaða. Hún keppti því í stóra úrslitahringnum við aðrar tegundir hvolpa á sama aldri. Ghazi hefur ekki mætt á hundasýningu í tæp tvö ár og náði loks síðasta Norðurlandameistarastiginu sínu og fær því titilinn Norðurlandameistari ásamt nafnbótinni NORDICCH við nafnið sitt. Hann er því orðinn bæði Íslenskur meistari og Norðurlandameistari. ISCH NORDICCH AD BH IPO1 Kkl1 Ghazi von nordsee STurm - BEST in show 3Af okkur er allt gott að frétta. Eftir afhendingu á hvolpum í sumar tóku við nokkrar vikur af ferðalögum innanlands. Við fórum meðal annars hringinn í kringum Snæfellsnes, hringinn í kringum Vestfirði, helgarferð norður ásamt styttri dagsferðum. Okkur hefur allta tíð þótt auðvelt að ferðast með hundana, alltaf má finna fjörur og afvikna staði þar sem þeir geta hlaupið og leikið. Líkt og í fyrra fórum við í útilegur með hjólhýsið og gistum á hátt í tíu tjaldsvæðum í sumar. Hundarnir komu að sjálfsögðu með í allar hjóla- og fjórhjólaferðir enda býður hvoru tveggja upp á frábæra hreyfingu. Við fengum beiðni um eitt óvenjulegt og skemmtilegt verkefni í sumar en þá hafði samband við okkur kvikmyndatökufyrirtæki sem vantaði schäferhunda í tökur á stórri amerískri bíómynd. Við eyddum því heilum degi á setti með fjölda fólks og öðrum dýrum og stóðu hundarnir sig mjög vel. A-gotið okkar undan Körmu og Leó varð eins árs fyrir rúmri viku og óskum við eigendum og hundum innilega til hamingju með daginn. B-gotið sem fæddist í vor er rétt að verða hálfs árs eftir nokkra daga. Eldbergshvolparnir okkar 18 búa víðsvegar um landið og er gaman að sjá hversu margir innan hópsins hittast reglulega og hafa gaman. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá okkur síðan í sumar og haust. |
EldbergsSchäfer ræktun Fréttir
December 2023
Flokkar |