Eldbergs
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Hundarnir okkar
  • Um okkur
  • Leitarþjálfun
  • Hafa samband
  • Væntanleg got

Fréttir

6 vikna í dag

8/12/2020

 
Gotið okkar er 6 vikna í dag og því er mikið fjör á heimilinu. Þau sýna öll sterkan karakter og eru dugleg að fara um heimilið, naga og draga leikföng og veltast um hvort annað í leik. Veðrið hefur verið ágætt undanfarið sem gefur okkur tækifæri til þess að leyfa þeim að hlaupa um úti og leika. Daglega takast þau á við alls konar verkefni og áskoranir enda reynum við að hafa umhverfið áhugavert og hvetjandi með fjölbreyttri afþreygingu. Á heimilinu búa einnig þrjú börn og fá því allir hvolpar næga athygli, knús og klapp á milli þess sem þau sofa, borða og leika sér.

Hvolparnir munu flytja á nýju heimilin sín 22. desember. Við erum svakalega stolt og ánægð með hvolpakaupendahópinn okkar og hlökkum til þess að gleðja allar fjölskyldurnar rétt fyrir jól þegar við afhendum þeim nýjasta fjölskyldumeðliminn. Það var gríðarlega erfitt og krefjandi verkefni að fara í gegnum umsóknirnar en því miður gátum við aðeins valið úr lítið brot sem bauðst að lokum hvolpur frá okkur. Við hvetjum því fólk til þess að fylgjast vel með og vera í sambandi við okkur í vetur og næsta vor. Ef allt gengur upp munum við para Italy og Ghazi og gerum ráð fyrir hvolpum næsta sumar.
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture

11 Hvolpar fæddir

31/10/2020

 
Hvolparnir hennar Körmu komu í heiminn þriðjudaginn 27. október. Fæðingin gekk mjög vel og komu allir hraustir og heilbrigðir í heiminn. Alls fæddust 11 hvolpar og var kynjaskiptingin 9 tíkur og 2 rakkar. Karma stendur sig frábærlega vel í móðurhlutverkinu en þetta er hennar fyrsta got. Hvolparnir þyngjast og dafna og heilsast öllum vel.
Picture
Picture
Í röntgenmyndatöku sem tekin var viku áður kom í ljós að Karma ætti von á 11 hvolpum. Við bjuggumst við stóru goti en engan grunaði að þeir væru alls 11 talsins. Allar líkur eru á því að hér sé stærsta schäfergot sem hefur fæðst og lifað á Íslandi. Karma var hraust alla meðgönguna enda í góðu formi og bar sig ótrúlega vel þrátt fyrir þennan fjölda.
Picture
Picture
Hvolpakassinn er heimagerður og var settur upp um tveimur vikum fyrir got. Tveimur dögum fyrir settan dag var Karma byrjuð að krafsa og undirbúa sig. Fæðingin hófst fyrir hádegi á settum degi og lauk um kl 20 sama dag.
Picture
Picture
Við fengum 10 heklaðar hvolpaólar í mismunandi litum að gjöf fyrir fæðinguna. Þegar ljóst var að hvolparnir væru fleiri en 10 var skellt í nokkrar aukaólar fyrir okkur og þvi er ein tíkin tvílit eins og sjá má.

Við hlökkum til að fylgjast með þessum glæsilega hópi stækka og þroskast. 
Picture
Picture

Staðfest got

26/9/2020

 
Þá er það staðfest, við eigum von á goti í lok október undan innfluttu tíkinni okkar AD BH IGP1 Kkl1 Karma Esprit van de Ybajo Hoeve. Karma var pöruð við Íslands Ísafoldar Ljónharð "Leó" en hann á eitt got fyrir. Karma hefur lokið öllum tilskyldum kröfum erlendis til þess að verða ræktunardýr en hún hefur lokið skapgerðarmati, þolprófi, hlýðniprófi, sporaprófi og bitvinnuprófi. Einnig hefur hún hlotið gæðavottunina Kkl1 sem hundar fá erlendis ef þeir uppfylla skilyrði um byggingarlag, geðslag og vinnueiginleika. Karma er undan glæsilegum rakka, VA1 Zirko van Liedehof, sem sigraði stærstu sýningu Hollands, Sieger Show, árið 2018. Leó er undan íslenska og alþjóðlega meistaranum BIS CIB ISCH Welincha´s Yasko sem var einn sigursælasti schäfer á landinu á árum áður. Karma og Leó eru bæði frí af mjaðma- og olnbogalosi.
Picture
Picture
Íslands Íslafoldar Ljónharður "Leó"
Picture
AD BH IGP1 Kkl1 Karma Esprit van de Ybajo Hoeve

Eldeyjar Hugi

3/9/2020

 
Öldungurinn okkar, Eldeyjar Hugi kvaddi í sumar eftir stutt en alvarleg veikindi. Hugi hefði orðið 13 ára í lok ágúst. Við minnumst hans með hlýhug og þakklæti fyrir tímann hjá okkur en við höfðum átt hann frá 8 vikna aldri.

Hugi hóf leitarþjálfun hjá björgunarsveitunum aðeins 3 mánaða gamall. Hann lauk fyrsta leitarprófinu sínu 6 mánaða og varð eins fljótt og mögulegt var fullþjálfaður útkallshundur bæði í víðavangsleit og snjóflóðaleit og fór í endurmatspróf árlega til þess að viðhalda réttindum sínum. Hugi sinnti útköllum samfleitt þar til hann fór á eftirlaun og tók þátt í fjölmörgum stórum þekktum leitum víðsvegar um landið. Hann fór í síðustu leitarútköllin sín árið 2017, þá 10 ára gamall. Hugi var í þónokkur skipti fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á vettvang og var því öllu vanur. Hugi var valinn Þjónustuhundur ársins hjá HRFÍ árið 2015 og heiðraður af því tilefni fyrir vel unnin störf sín hjá björgunarsveitunum.

Hugi var sýndur á sýningum HRFÍ með góðum árangri. Hann fékk tvö íslensk meistarastig og var á sínum tíma á meðal stigahæstu schäferrakka landsins. Hann hlaut fjölda heiðursverðlauna fyrir afkvæmi sín, fjölmörg hafa fengið íslensk meistarastig og urðu mörg þeirra meistarar. Afkvæmahópur hans sigraði nokkrum sinnum aðrar tegundir á hundasýningum HRFÍ sem besti afkvæmahópur sýningar. Hugi var síðustu árin sýndur sem öldungur, fékk ávallt heiðursverðlaun og var margoft valinn besti öldungur tegundar. Hugi átti fjögur got með fjórum tíkum, alls 24 hvolpa og í upphafi þessa árs eignaðist hann 10 afabörn.

Hugi var sá allra besti. Afburða vinnuhundur og yndislegur heimilishundur. Hann hafði allt það sem schäferhundur þarf að bera að okkar mati. Hann var öruggur, sjálfstæður, hugaður, hlýðinn og yfirvegaður sem nýttist honum einnig vel í vinnu en þar var hann 150% og alltaf hægt að treysta á hann. Hans er og verður sárt saknað.
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture

Sumarið okkar í máli og myndum

15/8/2020

 
Þá fer viðburðarríku sumri að ljúka. Við ferðuðumst víða um landið, fórum vikuferð í bústað, vikuhringferð um landið auk annarra styttri helgarferða og dagsferða. Það er að okkar mati auðvelt að ferðast með hunda innanlands, þeir eru yfirleitt allstaðar velkomnir. Á okkar ferð var aðeins einn staður sem ekki leyfir hunda og vissum við af því fyrirfram en það er Herjólfsdalur. Það kom þó ekki að sök þar sem það er annað tjaldsvæði í Vestmannaeyjum og þar eru hundar velkomnir. Þegar við ferðumst með hundana höfum við augun opin fyrir svæðum þar sem þeir geta fengið að hlaupa um lausir eins og þeir eru vanir að gera hjá okkur daglega. Oftast verða fyrir valinu fjörur, hættulitlar ár og opin svæði fjarri bílaumferð. Myndirnar koma í réttri tímaröð og eru teknar í maí, júní og júlí. Við minnum á Instagram síðuna okkar undir nafninu eldbergs en þar koma reglulega inn myndir og fréttir.
Picture
Gönguferð við Apavatn
Picture
Ghazi við Hrunalaug
Picture
Karma sullar í á skammt frá Laugavatni
Picture
Italy með hrábein að naga fyrir utan bústaðinn
Picture
Karma syndir í Apavatni
Picture
Hugi og krakkarnir í Grímsnesi
Picture
Sexhjólaferð upp á Miðfell
Picture
Quimba og Ghazi við Landeyjahöfn
Picture
Gönguferð á höfninni á Húsavík
Picture
Viðrað við árbakka á meðan við gistum í Hallormstaðaskógi
Picture
Sundsprettur á Austurlandi
Picture
Kvöldganga á Höfn í Hornafirði
Picture
Hópmynd við Jökulsárlón
Picture
Gist hjá skyldmennum sem eiga bæ við Kirkjubæjarklaustur
Picture
Italy og Karma í blíðunni fyrir austan á Klaustri
Picture
Karma á toppi Snjóöldu með Veiðivötn í baksýn
Picture
Fjöruferð á Eyrarbakka
Picture
Gönguferð í Vestmannaeyjum
Picture
Hundarnir eru í nokkurra metra löngum taumum á tjaldsvæðunum, okkar fást t.d. í Gæludýr.is
Picture
Hundarnir hlupu 10 km leið, eru þarna í 933 m hæð
Picture
Ghazi og Karma, Mýrdalsjökull í baksýn
Picture
Hópmynd á Eyrarbakka
Picture
Heimilislegt, verið að undirbúa kvöldmat
Picture
Gott að nýta tækifæri sem gefast í gönguferðum fyrir umhverfisþjálfun og hlýðniæfingar

VV1 bella vom haus Amany

14/5/2020

 
Við fengum sendar nokkrar myndir af Bellu dóttur hans Ghazi sem við sögðum frá í fyrra. Hún er 17 mánaða og býr hjá eiganda og ræktanda sínum í Hollandi. Við erum virkilega stolt af þessari glæsilegu tík sem sigraði á Sieger show í Belgíu í fyrra og varð í 3. sæti á Sieger í Hollandi. Sieger sýningarnar eru aðalsýningar ársins og eru haldnar einu sinni á ári í hverju landi fyrir sig. Búið er að fella niður allar sýningar í Hollandi út árið eins og í mörgum öðrum löndum en það hefði verið áhugavert að fylgjast með henni áfram á þessu ári. Ghazi eignaðist þrjú got í Hollandi áður en hann kom til Íslands 2 ára gamall.
Picture
Picture
Picture

Gleðilegt sumar

1/5/2020

 
Með hækkandi sól, batnandi veðri og lengri dögum gefst tækifæri fyrir fjölbreyttari hreyfingu og útiveru svo sem hjólaferðir, sund, vatnssull ofl. Svo er líka vinsælt að liggja úti í garði eða á pallinum og slaka á í sólinni. Nýju tíkurnar virðast alsælar með lífið á Íslandi og taka vel við allskonar þjálfun og æfingum.
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture

Fréttir

3/4/2020

 
Nú hafa nýju tíkurnar verið hjá okkur í rúmar þrjár vikur. Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með þeim og kynnast þeim betur. Þær eru báðar rosalega skemmtilegir karakterar, fjörugar, orkumiklar, yndislegar og barngóðar.

Sjötta gotið hans Ghazi kom í heiminn í mars og fæddust 8 heilbrigðir og duglegir hvolpar hjá Svarthamars ræktun. Þar á undan fæddust 10 hraustir hvolpar undan Ghazi hjá Ásgarðs Freyju ræktun í byrjun febrúar. Alls eru því afkvæmi Ghazi á Íslandi orðin 39. Við höfum fengið frábært tækifæri til að fylgja öllum gotunum hans eftir og er virkilega gaman að sjá hversu vel gengur hjá hvolpum og eigendum þeirra.
Picture
Karma
Picture
Picture
Italy
Picture
Italy
Picture
Picture
Ghazi

Tíkurnar komnar úr einangrun

14/3/2020

 
Nýju tíkurnar okkar komu úr einangrun á miðvikudaginn og gengur þeim mjög vel að aðlagast nýjum aðstæðum. Báðar eru afskaplega ljúfar og góðar en á heimilinu eru fyrir þrjú ung börn og þrír aðrir hundar. Þær nutu sín vel í lausagöngu með Ghazi eins og sjá má á myndunum.
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture

Tvær nýjar tíkur komnar til landsins

4/3/2020

 
Það mun heldur betur fjölga á heimilinu hjá okkur í næstu viku en þá munu nýju tíkurnar okkar tvær koma úr einangrun. Þær eru báðar frá Hollandi og bíða okkar núna í einangrunarstöðinni Móseli.

Sú eldri heitir Karma og er 2 ára. Hún hefur lokið öllum tilskyldum kröfum erlendis til þess að vera notuð í ræktun svo sem AD þolpróf, BH skapgerðarmat og IGP1 próf (hlýðni, spor og bitvinna) ásamt því að hafa hlotið gæðavottunina Kkl1 fyrir byggingu, geðslag og vinnueiginleika. IGP prófið er nýtt endurbætt próf í stað þess sem áður var kallað IPO og lauk hún öllum sínum prófum í Þýskalandi. Karma er undan VA1 IPO3 Kkl1 Zirko van Liedehof sem sigraði Sieger show í Hollandi 2018 og er hún frí af mjaðma- og olnbogalosi.

Yngri tíkin heitir Italy. Hún er tæplega árs gömul, virkilega falleg og efnileg tík. Italy er undan hinum fræga V1 BSZS 2019 IPO2 Kkl1 Kampus vom Drei Birkenswinger, ungur og glæsilegur þýskur rakki sem hefur sigrað fjölmargar sýningar. Kampus náði auk þess toppeinkunn á Sieger show í Þýskalandi 2018 og 2019 þar sem hann sigraði í bæði skiptin (SG1 og V1) og verður hann eflaust aftur á meðal þeirra hæstu núna í ár.

Við erum virkilega ánægð með þessar tvær vinkonur og hlökkum mikið til að hitta þær aftur.
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
<<Previous

    Eldbergs

    Schäfer ræktun

    Fréttir

    December 2020
    October 2020
    September 2020
    August 2020
    May 2020
    April 2020
    March 2020
    February 2020
    January 2020
    December 2019
    November 2019
    October 2019
    September 2019
    August 2019
    July 2019
    June 2019
    May 2019
    April 2019
    March 2019
    February 2019

    Flokkar

    All

    Picture
Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Hundarnir okkar
  • Um okkur
  • Leitarþjálfun
  • Hafa samband
  • Væntanleg got