Fréttir
Þá fer viðburðarríku sumri að ljúka. Við ferðuðumst víða um landið, fórum vikuferð í bústað, vikuhringferð um landið auk annarra styttri helgarferða og dagsferða. Það er að okkar mati auðvelt að ferðast með hunda innanlands, þeir eru yfirleitt allstaðar velkomnir. Á okkar ferð var aðeins einn staður sem ekki leyfir hunda og vissum við af því fyrirfram en það er Herjólfsdalur. Það kom þó ekki að sök þar sem það er annað tjaldsvæði í Vestmannaeyjum og þar eru hundar velkomnir. Þegar við ferðumst með hundana höfum við augun opin fyrir svæðum þar sem þeir geta fengið að hlaupa um lausir eins og þeir eru vanir að gera hjá okkur daglega. Oftast verða fyrir valinu fjörur, hættulitlar ár og opin svæði fjarri bílaumferð. Myndirnar koma í réttri tímaröð og eru teknar í maí, júní og júlí. Við minnum á Instagram síðuna okkar undir nafninu eldbergs en þar koma reglulega inn myndir og fréttir.
Við fengum sendar nokkrar myndir af Bellu dóttur hans Ghazi sem við sögðum frá í fyrra. Hún er 17 mánaða og býr hjá eiganda og ræktanda sínum í Hollandi. Við erum virkilega stolt af þessari glæsilegu tík sem sigraði á Sieger show í Belgíu í fyrra og varð í 3. sæti á Sieger í Hollandi. Sieger sýningarnar eru aðalsýningar ársins og eru haldnar einu sinni á ári í hverju landi fyrir sig. Búið er að fella niður allar sýningar í Hollandi út árið eins og í mörgum öðrum löndum en það hefði verið áhugavert að fylgjast með henni áfram á þessu ári. Ghazi eignaðist þrjú got í Hollandi áður en hann kom til Íslands 2 ára gamall.
Með hækkandi sól, batnandi veðri og lengri dögum gefst tækifæri fyrir fjölbreyttari hreyfingu og útiveru svo sem hjólaferðir, sund, vatnssull ofl. Svo er líka vinsælt að liggja úti í garði eða á pallinum og slaka á í sólinni. Nýju tíkurnar virðast alsælar með lífið á Íslandi og taka vel við allskonar þjálfun og æfingum.
Nú hafa nýju tíkurnar verið hjá okkur í rúmar þrjár vikur. Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með þeim og kynnast þeim betur. Þær eru báðar rosalega skemmtilegir karakterar, fjörugar, orkumiklar, yndislegar og barngóðar.
Sjötta gotið hans Ghazi kom í heiminn í mars og fæddust 8 heilbrigðir og duglegir hvolpar hjá Svarthamars ræktun. Þar á undan fæddust 10 hraustir hvolpar undan Ghazi hjá Ásgarðs Freyju ræktun í byrjun febrúar. Alls eru því afkvæmi Ghazi á Íslandi orðin 39. Við höfum fengið frábært tækifæri til að fylgja öllum gotunum hans eftir og er virkilega gaman að sjá hversu vel gengur hjá hvolpum og eigendum þeirra. Nýju tíkurnar okkar komu úr einangrun á miðvikudaginn og gengur þeim mjög vel að aðlagast nýjum aðstæðum. Báðar eru afskaplega ljúfar og góðar en á heimilinu eru fyrir þrjú ung börn og þrír aðrir hundar. Þær nutu sín vel í lausagöngu með Ghazi eins og sjá má á myndunum.
Það mun heldur betur fjölga á heimilinu hjá okkur í næstu viku en þá munu nýju tíkurnar okkar tvær koma úr einangrun. Þær eru báðar frá Hollandi og bíða okkar núna í einangrunarstöðinni Móseli.
Sú eldri heitir Karma og er 2 ára. Hún hefur lokið öllum tilskyldum kröfum erlendis til þess að vera notuð í ræktun svo sem AD þolpróf, BH skapgerðarmat og IGP1 próf (hlýðni, spor og bitvinna) ásamt því að hafa hlotið gæðavottunina Kkl1 fyrir byggingu, geðslag og vinnueiginleika. IGP prófið er nýtt endurbætt próf í stað þess sem áður var kallað IPO og lauk hún öllum sínum prófum í Þýskalandi. Karma er undan VA1 IPO3 Kkl1 Zirko van Liedehof sem sigraði Sieger show í Hollandi 2018 og er hún frí af mjaðma- og olnbogalosi. Yngri tíkin heitir Italy. Hún er tæplega árs gömul, virkilega falleg og efnileg tík. Italy er undan hinum fræga V1 BSZS 2019 IPO2 Kkl1 Kampus vom Drei Birkenswinger, ungur og glæsilegur þýskur rakki sem hefur sigrað fjölmargar sýningar. Kampus náði auk þess toppeinkunn á Sieger show í Þýskalandi 2018 og 2019 þar sem hann sigraði í bæði skiptin (SG1 og V1) og verður hann eflaust aftur á meðal þeirra hæstu núna í ár. Við erum virkilega ánægð með þessar tvær vinkonur og hlökkum mikið til að hitta þær aftur. Æingahelgi Leitarhunda fór fram á Akureyri um helgina. Ghazi æfði snjóflóðaleit bæði laugardag og sunnudag og stóð sig að sjálfsögðu mjög vel. Hann er virkilega efnilegur vinnuhundur og mjög lofandi sem leitarhundur. Við stefnum á að taka útkallspróf á hann og verður hann þá einn af þremur schäferhundum á landinu með slíkt gilt próf í snjóflóðaleit. Við höfum þjálfað leitarhunda í rúm 12 ár og yrði Ghazi okkar þriðji schäfer sem fer á útkallslista björgunarsveitanna. Mikil vöntun er á snjóflóðaleitarhundum og hafa síðustu vikur sýnt að þörfin er svo sannarlega til staðar.
Hundar eru ein öflugasta björgin sem við höfum í snjóflóðaleit en þeir geta fundið lykt af mönnum á nokkurra metra dýpi. Snjóflóðaleitin er fínleit líkt og sporaleit svo svæðið sem farið er um er mun minna en í víðavangsleit. Hundur þarf að vera vel umhverfisvaninn, taka merkjum og stýringum frá stjórnanda, vera óhræddur við fólk, menn, dýr og vélar og fara öruggur niður í holuna til þess týnda. Verðlaunin eru að fá skemmtilegan leik eftir fundinn og þeir sem eru með allar tilætlaðar hvatir gera allt til þess að klára verkefnin sín og fá leikinn sinn að launum. Fengum fallegt veður í göngu í vikunni þrátt fyrir storma og stormviðvaranir dagana í kring og smelltum af nokkrum myndum.
Við óskum öllum gleðilegra jóla og þökkum samfylgdina á árinu sem er að líða. Árið hefur verið sérstaklega gott hjá okkur. Nú hefur 21 fjölskylda eignast hvolp undan Ghazi og munu fleiri bætast í hópinn á næsta ári. Það er gaman að fá að fylgja hvolpunum eftir og sjá þá vaxa og dafna og ánægjulegt að heyra hvað gengur vel hjá öllum. Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar í göngunni okkar á aðfangadag.
Ghazi var valinn Besti rakki tegundar og Besti hundur tegundar á hundasýningu HRFÍ í nóvember. Hann fékk íslenskt meistarastig, norðurlandameistarastig og Crufts þátttökurétt. Þetta var hans þriðja íslenska meistarastig svo hann er núna orðinn Íslenskur meistari. Ghazi keppti því næst í tegundahóp 1 við aðra fjár- og hjarðhunda, sigraði þar og var valinn Besti hundur í tegundahóp 1. Á sunnudeginum mætti hann aftur í stóra hringinn í Best in show og lenti í öðru sæti. Ghazi var því Annar besti hundur sýningar! Glæsilegur árangur hjá þessum unga hundi og mikið sem við erum stolt af honum. Alls voru skráðir 842 hundar af ýmsum tegundum. Eftir árið er Ghazi: Stigahæsti rakki Schäferdeildarinnar Stigahæsti hundur Schäferdeildarinnar Stigahæsti schäfer hjá HRFÍ Stigahæsti hundur HRFÍ allar tegundir 10.-12. sæti Íslenskur meistari 3x BOB Besti hundur tegundar BIS 1 Besti hundur sýningar Sérsýning Schäferdeildar BIS 2 Annar besti hundur sýningar HRFÍ Sýningarárangur Ghazi 2019
|
EldbergsSchäfer ræktun Fréttir
October 2022
Flokkar |