Eldbergs
Þann 7. desember fæddust hjá okkur 8 hvolpar, 4 tíkur og 4 rakkar. Móður og hvolpum heilsast vel og stendur Askja sig mjög vel í móðurhlutverkinu.
Við tökum við umsóknum um hvolp á emailið [email protected]. Hvolparnir verða tilbúnir að flytja á framtíðarheimili sín 1. febrúar. Nánari upplýsingar um gotið má finna hér. Schäferdeild HRFÍ hélt deildarsýningu í ágúst. Sigurvegari í tíkunum var innflutta vinnutíkin okkar AD BH IGP1 Kkl1 Karma Esprit v.d. Ybajo Hoeve. Karma sigraði vinnuhundaflokkinn og endaði sem Besta tík tegundar ásamt því að fá íslenskt meistarastig. Dóttir hennar, Eldbergs Dyngja, sigraði unghundaflokkinn og endaði sem 3. besta tík tegundar. Eldbergs Birta sigraði sinn flokk og fékk einnig meistaraefni.
Í lok síðasta árs var haldin heiðrun hjá Schäferdeildinni þar sem ýmsar viðurkenningar voru veittar, meðal annars fyrir bestan árangur á sýningum. Tík frá okkur náði þeim glæsilega árangri að verða Stigahæsti ungliði ársins og var það Ungliðameistarinn okkar ISJCH Eldbergs Birta.
Eldbergs Birta náði þeim glæsilega árangri á árinu að verða valin Besti ungliði tegundar tvisvar sinnum. Í bæði skipti fékk hún íslenskt ungliðameistarastig og er því orðin Íslenskur ungliðameistari. Hún fær meistaranafnbót fyrir framan nafnið sitt og ber því núna heitið ISJCH Eldbergs Birta.
Um helgina var haldin Norðurljósasýning HRFÍ. Í fyrsta sinn eftir covid var haldin sýning án sóttvarnartakmarkanna og grímuskyldu sem voru góð tíðindi. Skráðir voru 83 schaferhundar, 52 snöggir og 31 síðhærður. Við mættum með sex hunda, Ghazi og fimm unga Eldbergshunda. Allir hundar frá okkur fengu excellent og fjórir fengu meistaraefni. Ghazi sigraði rakkana, var valinn Besti rakki tegundar og endaði sem Besti hundur tegundar. Hann fékk sitt síðasta alþjóðlega meistarastig og mun því hljóta nafnbótina CIB eða alþjóðlegur meistari. Einnig fékk hann sitt síðasta norðurljósameistarastig og mun fá nafnbótina NLM eða Norðurljósameistari. Ghazi keppti í úrslitum í stóra hringnum og endaði sem þriðji besti hundur af þeim fjár- og hjarðhundum sem mættu á sýninguna. Eldbergs Birta, fóðurtíkin okkar, var valin Besta tík tegundar, aðeins 9 mánaða gömul, eftir að hafa keppt við aðrar tíkur sem komust áfram upp úr sínum flokkum. Birta var einnig valin Besti ungliði tegundar. Hún fékk íslenskt meistarastig, norðurljósameistarastig og ungliðameistarastig. Virkilega glæsilega árangur hjá þessari ungu tík. Þar sem hún keppti í ungliðaflokki var hún of ung til þess að geta tekið við alþjóðlega meistarastiginu. Í úrslitum í stóra hringnum keppti hún við ungliða úr öðrum tegundum og komst í hóp topp 12 bestu ungliða sýningarinnar. Eldbergs Apríl, fóðurtíkin okkar, var valin önnur besta tík á eftir Birtu, aðeins 16 mánaða gömul. Hún hlaut vara alþjóðlegt meistarastig. Eldbergs Bríet, 9 mánaða fóðurtíkin okkar, komst einnig áfram í keppni um bestu tík tegundar í síðhærðum schafer. Hún hlaut vara ungliðameistarastig. Ungliðarakkarnir Eldbergs Birnir og Eldbergs Bjarkar voru að mæta á sína fyrstu sýningu. Báðir fengu excellent og góða umsögn í ungliðaflokki. Að lokum mættum við með Ghazi og afkvæmi í keppni um besta afkvæmahóp tegundar. Hópurinn fékk heiðursverðlaun og var valinn Besti afkvæmahópur tegundar. Við fórum síðan í úrslit sýningarinnar þar sem keppt var við hópa úr öðrum tegundum og sigruðum við sem Besti afkvæmahópur sýningar. Árangur okkar á sýningunni var virkilega glæsilegur og hlutum við eftirfarandi titla, stig og verðlaun:
Hvolparnir hennar Körmu komu í heiminn þann 2. febrúar. Þeir fengu þessa flottu dagsetningu 02.02.2022 og eru vikugamlir í dag. Hvolparnir eru sex talsins, fimm tíkur og einn rakki. Þeir þyngjast og dafna og Karma stendur sig mjög vel í móðurhlutverkingu.
Eldbergs ræktun kynnir væntanlegt got sem verður undan glæsilegum innfluttum foreldrum. Þau hafa bæði lokið skapgerðarmati og erlendum vinnuprófum.
Foreldrar: AD BH IGP1 Kkl1 Karma Esprit van der Ybajo Hoeve AD BH WB IGP1 Iban von Bad Boll "Kobe" Karma og Kobe uppfylla ströngustu skilyrði tegundarinnar til undaneldis en þau hafa bæði lokið öllum tilskyldum vinnuprófum erlendis. Báðir foreldrar hafa lokið AD þolprófi, BH skapgerðarmati og IGP1 vinnuprófi. Til þess að hljóta IGP1 titil þurfa hundar að ljúka prófum í hlýðni, sporarakningu og bitvinnu. Að auki hefur Kobe lokið WB sem er nýlegt karakterpróf sem þarf að ljúka fyrir pörun erlendis. Karma hefur hins vegar lokið Kkl1 ræktunarstaðli. Kkl1 titillinn gefur þá viðurkenningu um að hundur standist viðmið um sérstaklega góða byggingu, geðslag og vinnueiginleika og mælt er með þeim hundum til undaneldis. Báðir foreldrar eru fríir af mjaðma- og olnbogalosi. Gotið er væntanlegt í febrúar og verður afhent í apríl. Þeir sem eru á lista og hafa áhuga á þessu goti mega endilega hafa samband við okkur og minna á sig. Nú þegar árinu er að ljúka viljum við óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á næsta ári. Við erum þakklát fyrir þann góða stuðning sem við höfum fengið og þann áhuga sem fólk hefur sýnt okkar ræktun. Í ár höfum við fengið alls konar áskoranir. Í upphafi árs má helst nefna eftirfylgd með okkar fyrsta goti sem afhent var fyrir ári síðan, þann 22. desember. Allir hvolpar úr A gotinu sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu sóttu námskeið saman hjá Ástu Dóru í hundaskólanum Gallerí Voff sem gekk frábærlega vel. Flestir hvolpar búsettir á landsbyggðinni sóttu helgarnámskeið í sinni heimabyggð hjá Alberti Steingrímssyni en hann hefur haldið námskeið árlega á Austurlandi og Norðurlandi. Við leggjum mikla áherslu á að hvolpar og eigendur sæki námskeið þar sem fram fer mikil umhverfisþjálfun og eigendur læra undirstöðuatriðin í uppeldi og þjálfun hvolpa. Í mars fór fram snjóflóðarleitarúttekt hjá Leitarhundum og lauk Ghazi leitarprófi með glæsilegum árangri og komst þar með á útkallslista björgunarsveitanna sem snjóflóðarleitarhundur. Þann 18. apríl, aðeins örfáum dögum eftir tilkynningu um næsta got hjá okkur, lentum við í því að miklu magni af rottueitri í bland við matvæli var dreift um garðinn hjá okkur. Augljóst var að tilgangurinn hafi verið að stórskaða okkar ræktun en rottueitur veldur löngum og kvalarfullum dauðdaga fyrir þann sem það innbyrðir. Til allrar lukku voru börnin okkar að heiman sem og tveir hundar af fjórum sem búsettir voru hjá okkur á þeim tíma. Þau tvö sem urðu fyrir eitruninni náðu fullum bata og ekki að sjá á þeim í dag að nokkuð hafi komið fyrir. B gotið okkar fæddist svo í maí og fluttu þau á sín heimili í byrjun júlí. Eftir mikla yfirsetu við umönnun hvolpanna gafst því tími til ferðalaga og fóru mest fjórir hundar með okkur í útilegur. Hvolpar í B goti sem búsettir eru á suðvesturhorni landsins sóttu námskeið í haust hjá Ástu Dóru með góðum árangri og hvolpar á landsbyggðinni hafa fengið sína þjálfun í heimabyggð og dafna allir vel. Við stefnum á að vera með eitt til tvö got á næsta ári og hvetjum áhugasama til að setja sig í samband við okkur. Við minnum á instagram síðuna okkar undir nafninu eldbergs en þar koma reglulega inn myndir og fréttir. Við þökkum samfylgdina í ár og hlökkum til spennandi tíma á komandi árum. Bestu kveðjur frá Eldbergs fjölskyldunni. Verslunarmannahelgi 2021 - Á toppi Bolafjalls við Bolungarvík
Það gekk vel hjá okkur á hundasýningunni sem haldin var síðustu helgi. Við mættum með sex hunda á laugardaginn: þrjá hvolpa sem voru að koma á sína fyrstu sýningu, eina síðhærða ungliðatík, eina fullorðna tík og einn rakka. Það sem stóð hvað helst upp úr var árangur Ghazi á sýningunni en hann sigraði tegundina og fór í úrslit í stóra hringnum þar sem hann keppti við sigurvegara úr öðrum fjárhundategundum. Hann sigraði þar og var valinn Besti hundur í tegundahópi 1. Hann mætti því aftur á sunnudeginum til þess að keppa um titilinn Besta hund sýningar, topp 9 hundar yfir allar tegundir. Ghazi lenti þar í þriðja sæti og var því þriðji besti hundur sýningar af 1150 hundum en þetta var langstærsta sýning félagsins til þessa. Stórglæsilegur árangur og gætum við ekki verið stoltari. Annar hundur frá okkur keppti einnig í úrslitum en það var hin 6 mánaða gamla Eldbergs Birta sem sigraði hvolpaflokkinn og var valin Besti hvolpur tegundar 6-9 mánaða. Hún keppti því í stóra úrslitahringnum við aðrar tegundir hvolpa á sama aldri. Ghazi hefur ekki mætt á hundasýningu í tæp tvö ár og náði loks síðasta Norðurlandameistarastiginu sínu og fær því titilinn Norðurlandameistari ásamt nafnbótinni NORDICCH við nafnið sitt. Hann er því orðinn bæði Íslenskur meistari og Norðurlandameistari. ISCH NORDICCH AD BH IPO1 Kkl1 Ghazi von nordsee STurm - BEST in show 3Af okkur er allt gott að frétta. Eftir afhendingu á hvolpum í sumar tóku við nokkrar vikur af ferðalögum innanlands. Við fórum meðal annars hringinn í kringum Snæfellsnes, hringinn í kringum Vestfirði, helgarferð norður ásamt styttri dagsferðum. Okkur hefur allta tíð þótt auðvelt að ferðast með hundana, alltaf má finna fjörur og afvikna staði þar sem þeir geta hlaupið og leikið. Líkt og í fyrra fórum við í útilegur með hjólhýsið og gistum á hátt í tíu tjaldsvæðum í sumar. Hundarnir komu að sjálfsögðu með í allar hjóla- og fjórhjólaferðir enda býður hvoru tveggja upp á frábæra hreyfingu. Við fengum beiðni um eitt óvenjulegt og skemmtilegt verkefni í sumar en þá hafði samband við okkur kvikmyndatökufyrirtæki sem vantaði schäferhunda í tökur á stórri amerískri bíómynd. Við eyddum því heilum degi á setti með fjölda fólks og öðrum dýrum og stóðu hundarnir sig mjög vel. A-gotið okkar undan Körmu og Leó varð eins árs fyrir rúmri viku og óskum við eigendum og hundum innilega til hamingju með daginn. B-gotið sem fæddist í vor er rétt að verða hálfs árs eftir nokkra daga. Eldbergshvolparnir okkar 18 búa víðsvegar um landið og er gaman að sjá hversu margir innan hópsins hittast reglulega og hafa gaman. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá okkur síðan í sumar og haust. |
EldbergsSchäfer ræktun Fréttir
December 2023
Flokkar |